Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 3/2024

Úrskurður nr. 3/2024

 

Þriðjudaginn 23. janúar 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 20. september 2023, kærði […] (hér eftir kærandi) málsmeðferð embættis landlæknis vegna álits, dags 24. ágúst 2023, í kvörtunarmáli sem beindist að kæranda.

 

Kærandi krefst þess að álit embættis landlæknis í málinu verði ógilt og að því verði vísað aftur til embættisins til löglegrar málsmeðferðar.

 

Málið er kært á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og barst kæra innan kærufrests.

I. Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Ráðuneytinu barst kæra frá kæranda þann 20. september á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Ráðuneytið óskaði, með bréfi dags. 28. september 2023, eftir umsögn embættis landlæknis vegna kærunnar. Barst ráðuneytinu umsögn embættisins með bréfi, dags. 19. október 2023. Ráðuneytið sendi kæranda umsögn embættisins og bárust athugasemdir kæranda við umsögnina 3. nóvember 2023. Voru athugasemdir kæranda í kjölfarið sendar embætti landlæknis til kynningar. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

 

II. Málavextir.

Með kvörtun, dags. 7. júní 2022, kvartaði nafngreindur sjúklingur (hér eftir kvartandi), á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, til embættis landlæknis vegna meintra mistaka og vanrækslu af hálfu kæranda við veitingu heilbrigðisþjónustu sem kvartandi taldi að hafi átt sér stað á vegum Heilbrigðisstofnunar […] í […] þann 12. mars 2022. Kvörtunin beindist að kæranda.

 

Gögn máls þessa bera með sér að kvartandi hafi vaknað umrædda nótt við mikla verki og umtalsverða blæðingu vegna fósturláts eða aðra orsök blæðingar á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Kvartandi hafi haft samband við […] fyrir þjónustu […] utan dagvinnutíma. Kvartanda hafi þá verið gefið samband við vakthafandi lækni á staðnum, þ.e. kæranda. Símasamband kvartanda við kæranda hafi hins vegar slitnað stuttu eftir að samtalið hófst og áður en kærandi taldi sig hafa skýra mynd af ástandi kvartanda.

 

Kvartandi hafi í kjölfarið aftur haft samband við […], sem hafi sagt kvartanda að hringja í 112, þar sem ekki náðist í kæranda. Í kjölfarið hafi neyðarlínan sent sjúkraflutningamenn á heimili kvartanda, sem hafi skoðað kvartanda og veitt henni fyrstu aðstoð með verkjalyfjum. Sjúkraflutningamennirnir hafi einnig reynt að ná sambandi við kæranda í nokkur skipti en án árangurs. Við þær aðstæður hafi verið ákveðið að hafa samband við vakthafandi lækni á […] á […]. Óskaði sá læknir eftir því við sjúkraflutningamennina að flytja kvartanda á […] til skoðunar þar sem ekki gengi að ná sambandi við kæranda.

 

Kærandi náði sambandi við sjúkraflutningamennina þegar sjúkraflutningur var hafinn. Taldi kærandi að flutningur kvartanda á […] væri ekki nauðsynlegur og að óhætt væri að snúa aftur með kvartanda. Sjúkraflutningamennirnir hafi, í samræmi við fyrirmæli kæranda, komið kvartanda aftur fyrir á heimili hennar og yfirgefið heimilið. Sjúkraflutningamennirnir hafi hins vegar komið aftur rúmum hálftíma síðar, eftir frekari samskipti við lækni á vakt á […], og farið með kvartanda á […] til skoðunar. Í seinni ferðinni, sem þá endaði á […], hafi þurft að gefa kvartanda sterk verkjalyf vegna verkja. Kvartandi hafi síðar sama dag verið skoðuð af kvensjúkdómalækni, og send í aðgerð þar sem fóstursekkur var enn til staðar og ljóst að gera þyrfti tæmingu á legi kvartanda þar sem ekki var útlit fyrir að það myndi gerast að sjálfsdáðum.

 

III. Málsástæður kæranda.

Kærandi kveður að í niðurstöðu álits embættis landlæknis, sem gerir alvarlegar athugasemdir við aðkomu kæranda vegna heilbrigðisþjónustu sem hann veitti kvartanda í málinu, hafi embættið ekki tekið tillit til aðstæðna eða þeirra upplýsinga sem kærandi hafi haft aðgang að á þeim tíma þegar kærandi mat það sem svo að kvartandi þyrfti ekki á bráðri sjúkrahúsinnlögn að halda. Hefðu allar upplýsingar legið fyrir hefði kærandi ekki tekið þær ákvarðanir sem hann tók umrædda nótt. Símasamband hafi verið slæmt og kærandi ekki fengið upplýsingar um sjúkraflutning á kvartanda fyrr en nokkru eftir að hann hafi hafist. Þá hafi ekki annað legið fyrir en að kærandi myndi skoða kvartanda, en af því hafi ekki orðið vegna þess að kvartandi hafi, gegn ráðleggingum og ákvörðun kæranda, verið flutt á […].

 

Kærandi telur að þar sem embætti landlæknis hafi ekki aflað umsagnar óháðs sérfræðings, í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, standi kærandi höllum fæti við málsmeðferðina þar sem augljóst sé að hlutleysis hafi ekki verið gætt gagnvart kæranda og málatilbúnaði hans.

 

IV. Málsástæður embættis landlæknis.

Landlæknir telur að fullyrðingar kæranda um misskilning, sem hafi valdið því að kærandi gaf út fyrirmæli til sjúkraflutningamannanna um að fara aftur með kvartanda á heimili hennar, eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Það sé enn fremur ekki í samræmi við gögn málsins að kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um að vakthafandi læknir á […] hafi óskað eftir flutningi á kvartanda á […]. Þá bendi gögn málsins öll með sér að kærandi hafi ekki á neinum tímapunkti haft í hyggju að vitja kvartanda eða kanna ástand hennar nánar með eigin hendi eftir að hann fyrirskipaði sjúkraflutningamönnunum að fara með kvartanda aftur á heimili sitt. Rúmur hálftími hafi liðið frá því að sjúkraflutningamenn hafi komið kvartanda aftur fyrir á heimili sínu og þangað til sjúkraflutningamennirnir vitjuðu hennar aftur til þess að fara með hana á […]. Kærandi hafi ekki heldur gert tilraun til að hafa samband við kvartanda á þeim tíma. Telur landlæknir að við þær aðstæður sem uppi voru í tilfelli kvartanda að eina rétta skoðunin hafi verið að flytja kvartanda á sjúkrahús til nánari skoðunar. Kærandi hafi ekki gert nokkurn reka að því að svo yrði.

 

Um umsögn óháðs sérfræðings bendir embættið á að því beri ekki skylda til að leita umsagnar óháðs sérfræðings enda segi í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum. Eins og fram komi í álitinu hafi landlæknir ekki talið þörf á að leita slíkrar umsagnar þar sem reynt hafi á þekkingu sem starfsmenn embættisins búi yfir. Er þess getið í umsögn landlæknis að auk landlæknis sjálfs hafi tveir læknar og hjúkrunarfræðingur unnið álitið.

 

Varðandi athugasemd í kæru, þar sem kærandi tekur fram að skýringum sínum sé alfarið vísað á bug sem hreinum ósannindum og kærandi átalinn fyrir leyfa sér að bera hönd fyrir höfuð sér, telur embættið að skýringar kæranda eigi sér enga stoð í gögnum málsins auk þess sumar skýringar kæranda hafi bæði verið særandi og óviðeigandi.

 

Hafnaði landlæknir því, með hliðsjón af framangreindu, að málsmeðferð landlæknis við útgáfu álits vegna heilbrigðisþjónustu kæranda til handa kvartanda hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög um landlækni og lýðheilsu og stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Rannsókn landlæknis hafi verið ítarleg og vandlega unnin og í samræmi við allar reglur stjórnsýsluréttar. Ekki hafi verið tilefni til að afla umsagnar óháðs sérfræðings í málinu. Kærandi hafi á öllum tímapunktum verið boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna allra gagna sem bárust landlækni frá öllum þeim aðilum sem að málinu komu. Ekki verði þó fram hjá því litið að málatilbúnaður kæranda stangast á við samhljóma framburð kvartanda og þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem að málinu komu.

 

V. Athugasemdir kæranda.

Kærandi telur ekkert koma fram í umsögn landlæknis sem breyti því að embættinu hafi borið að leita umsagnar óháðs sérfræðings í málinu. Þá telji kærandi að fyrir liggi að landlæknir hyggist grípa til eftirlitsúrræða, sem séu verulega íþyngjandi gagnvart honum. Því verði að gera þá kröfu til embættisins að gæta meðalhófs. Bendir kærandi á að embættið rannsaki kvörtunarefni og taki ákvörðun um eftirlitsúrræði. Umsögn óháðs aðila sé þ.a.l. nauðsynleg og forsenda þess að óhlutdrægni sé tryggð í málsmeðferð.

 

VI. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli samkvæmt 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

 

Í II. kafla laganna er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu en í 12. gr. þeirra er kveðið á um kvörtun til landlæknis. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir út skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

 

Rannsókn málsins.

Kærandi byggir kæru sína í megindráttum á því að embætti landlæknis hafi borið að afla umsagnar óháðs sérfræðings við rannsókn málsins, en fyrir liggur að embættið lauk málinu án þess að afla umsagnar. Í 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu kemur fram að embætti landlæknis skuli að jafnaði afla umsagnar óháðs sérfræðings eða sérfræðinga, þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að umsögn óháðs sérfræðings í kvörtunarmálum, eins og því sem hér er kært, er ekki lögbundin í öllum tilvikum. Ákvæðið býður upp á svigrúm til mats í hverju máli fyrir sig varðandi það hvort slík umsögn teljist nauðsynleg, sbr. úrskurðir ráðuneytisins í málum nr. 19/2020, 22/2020 og 5/2021.

 

Við ákvörðun um hvort leita skuli umsagnar óháðs sérfræðings þarf fyrst og fremst að framkvæma mat á því hvort unnt sé að upplýsa mál með fullnægjandi hætti án umsagnar. Er það þáttur í rannsóknarskyldu embættis landlæknis í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Í því samhengi skiptir máli hvort innan embættisins sé næg þekking og sjálfstæði til að leggja mat á þau atriði við veitingu þeirrar heilbrigðisþjónustu sem kvörtun lýtur að. Fer því ákvörðun um það hvort afla skuli umsagnar óháðs sérfræðings eftir því hvort sú þekking sem nauðsynleg er til að komast að niðurstöðu í máli sé þegar til staðar hjá embætti landlæknis eða hvort leita þurfi eftir henni annars staðar frá, líkt og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins, nr. 22/2020.

 

Ráðuneytið telur eðlilegt að í málum þar sem fyrst og fremst reynir á almenna þekkingu á störfum og starfsháttum lækna geti það samræmst 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, í ljósi þess svigrúms sem ákvæðið veitir, að afla ekki umsagnar óháðs sérfræðings enda sé sú þekking til staðar á meðal starfsmanna embættis landlæknis. Embætti landlæknis hefur svigrúm samkvæmt ákvæðinu til mats um það hvort afla skuli umsagnar í þessum tilvikum. Í umræddu máli hafi tveir læknar og einn hjúkrunarfræðingur unnið að áliti embættis landlæknis auk landlæknis sjálfs. Hlutverk ráðuneytisins við meðferð kærumáls þessa er að leggja mat á hvort það hafi samrýmst 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um laganna og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

 

Í málinu reynir á viðbrögð kæranda vegna samskipta hans við kvartanda, sem þurfti á heilbrigðisþjónustu að halda. Samkvæmt gögnum málsins gerði kærandi ekki tilraun til að skoða kvartanda, hvorki fyrir né eftir símtal hans við sjúkraflutningamenn á […] þegar hann ákvað að snúa sjúkraflutningamönnunum við á leið sinni með kvartanda á […]. Kæranda hafi gefist augljóst tækifæri til að skoða kvartanda eftir að hún var komin aftur til síns heima. Það hafi hann ekki gert. Embætti landlæknis lagði mat á það hvort kærandi hefði vanrækt starfsskyldur sínar sem læknir með því að láta hjá líða að framkvæma sjálfur skoðun á kvartanda í ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir um ástand hennar. Telur ráðuneytið að mat á þeim skyldum sem hvíla á lækni að framkvæma slíka skoðun lúti að almennum starfsskyldum læknis og krefjist þess ekki að aflað sé umsagnar óháðs sérfræðings, enda komi sérfræðingar embættis landlæknis að meðferð kvörtunar. Að því virtu og með vísan til þess að tveir læknar og einn hjúkrunarfræðingur komu að meðferð málsins hjá embættinu auk landlæknis sjálfs telur ráðuneytið að þekking á skyldum lækna í þessu sambandi hafi legið fyrir hjá embættinu og embættið því ekki þurft að afla umsagnar óháðs sérfræðings til að leggja sérstakt mat á þetta atriði.

 

Þá telur ráðuneytið að athugasemdir kæranda, sem lúta að mögulegum eftirlitsúrræðum embættis landlæknis gagnvart honum í kjölfar álitsins, snúi ekki að málsmeðferð embættisins við gerð álitsins. Þar af leiðandi kemur athugasemdin ekki til frekari skoðunar af hálfu ráðuneytisins.

 

Við rannsókn málsins leitaði embætti landlæknis eftir athugasemdum og umsögnum allra þeirra sem komu að veitingu heilbrigðisþjónustu til kvartanda umrædda nótt. Kærandi hafi á öllum stigum málsins fengið afrit af öllum gögnum sem lágu til grundvallar og fengið að tjá sig um umsagnir og athugasemdir allra sem að málinu komu. Þá verður ekki séð að rökstuðningur embættisins á þeim gögnum sem lágu til grundvallar hafi verið óforsvaranlegur eða ekki í samræmi við gögn málsins. Telur ráðuneytið ekkert benda til annmarka á málsmeðferð embættis landlæknis í þessu sambandi eins og kærandi byggir á. Verður málsmeðferð embættisins vegna kvörtunar kæranda því staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum